Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Gleðileg jól!

Að sökum þess að ég hafi sagt ykkur svo mikið frá því hvað væri að fara gerast næstu daga í síðasta bloggi ákvað ég að blogga ekkert fyrir en ég væri búin að fara í Hull ferðina. Þess vegna leið svona langt á milli blogga hjá mér. Þetta er einnig síðasta bloggið fyrir jól þannig ég blogga næst bara í Janúar.

Eins og flestir vita kom mamma í heimsókn 27.nóvember og var hjá mér í 6 daga. Það var ekkert smá gott að fá mömmu í heimsókn. Gaman að sýna henni hvernig lífsrútínan hjá mér er hérna í London og gaman að kynna henni fyrir fjölskyldu minni og öllum vinum mínum sem ég hef kynnst hérna úti. Við gerðum margt skemmtilegt saman eins og að fara í stærstu verslunarmiðstöð evrópu sem heitir , Westfield, fórum á Oxford street,  sýndi henni miðbæinn, fórum út að borða, hún kom að horfa á mig syngja með kórnum á 1.des hátíðinni, buðum Huldu bestu vinkonu minni hérna úti í mat og áttum rólegar kvöldstundir saman sem einkenndust af spjalli og nammiáti. Þegar ég kvaddi hana á lestarstöðinni langaði mig rosalega að fara bara með henni heim en það sem huggaði mig var að það er orðið svo stutt þangað til ég kem heim í jólafrí þannig ég verð komin heim áður en ég veit af.
Takk fyrir komuna mamma mín, það var rooooosalega gott að hafa þig.

Mamma á Westminister Bridge                                Ég að syngja á 1.des hátíðinni með kórnum
og áin Times í baksýn.


Hin margumtalaða Hull ferð varð að veruleika um helgina og verð ég að segja að ég hafi bara skemmt mér konunglega. Hull er lítill og sætur bær sem minnti mig rosalega mikið á Akureyri. Gaman að koma á svona stað sem er ekki eilíft stress. Til að byrja með sagði ég að ég væri alveg til í að búa þarna þangað til að ég fór svo að líta í kringum mig þá er markaðurinn af karlmönnum ekkert sá besti þannig ég læt það vera að flytja til Hull. Kórhópurinn lagði í hann frá London snemma á laugardagsmorgni og tók lestarferðin alveg 3 tíma. Þegar til Hull var komið tékkuðum við okkur inn á hótelið sem var bara beint á móti "kirkjunni" sem við sungum í. Ástæðan fyrir því að ég set kirkju í gæsalappir er sú að það er varla hægt að kalla þetta kirkju, þetta er bara svona safnaðarheimili með lítilli kapellu. Við Hulda komum okkur fyrir á herberginu okkar, gerðum okkur til fyrir messuna og svo og keyptum okkur smá að borða og svo var bara koma sér í kapelluna. Ég hélt fyrst að þessi messa yrði á ensku og var búin að undirbúa mig undir að skilja ekki orð í 45 mínútur nei,nei svo var bara messan á Íslensku og einungis Íslendingar í messunni sem gladdi litla hjartað mitt mikið. Fengum heimabökuð flatbrauð með hangikjöti, heimabakaðar kleinur og brauðtertur og margar aðrar góðar kræsingar. Íslenskt JÁ TAKK!  Gaman að segja frá því að ég hitti Jónas frænda Ella og ég skilaði innilegri kveðju til hans frá þér og hann sömuleiðis til þín. Eftir að hafa sungið 4 íslensk jólalög, borða yfir okkur af Íslenskum kræsingum og spjalla við Íslendingana sem búa í Hull,. fórum við stelpurnar aðeins að skoða bæinn. Ætluðum að fara kaupa hvítvín sem endaði með Primark ferð, fyrsta skiptið sem við fórum inn í Primark sem var hægt að fá að máta fötin. Hérna í London eru bara kílómeters raðir í mátunarklefana og við fengum sko aðeins njóta okkar inn í búðinni í þetta skiptið og maður gat loksins HUGSAÐ þarna inni. Þegar heim á hótel var komið var bara klætt sig í djammgallann og komið sér út. Fórum út að borða allur hópurinn og svo var bara kíkt á djammið. Ótrúlega gaman að segja frá því að kvenfólkið þarna er kannski ekkert það myndarlegasta og þegar við löbbuðum inn á skemmtistaðina þarna var liggur við snúið sér á hálslið. Eins og við værum bara einhverjar poppstjörnur eða ungfrú heimur. Auðvitað leiðist manni ekki þessi athygli því aldrei hefur maður fengið svona mikla athygli á Íslandi því þar er allt morandi í gullfallegu kvenfólki og maður er bara núll og nix þar. Þessi ferð var frábær í alla staði og eins og fram var komið skemmti ég mér konunglega.


Það eru einungis 11 dagar í að Hríseyingar verði að fara undirbúa sig undir komu mína. Tilhlökkunin er gífurleg eins og ég hef marg oft sagt áður. Þrátt fyrir að lífið hjá mér sé frábært hérna í London hlakka ég bara rosalega til að fá smá frí og slaka á í kyrrð og ró í eyjunni fögru með fólkinu mínu.

Eins og ég sagði þá er þetta síðasta bloggið fyrir jól þannig ég ætla þakka ykkur öllum sem hafa verið dugleg að fylgjast með dvölinni minni hérna í London kærlega fyrir að vera svona áhugasöm um líf mitt og vonandi verði þið eins dugleg og áhugasöm eftir áramót.

Gleðileg jól og takk fyrir allt gamalt og gott.
Hlakka til að sjá ykkur öll um jólin.

Knús og kossar til ykkar allra.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband