Endalaus lærdómur.

Þegar maður hefur verið svona lengi í burtu frá fjölskyldu og vinum áttar maður sig á svo mörgum hlutum.  Ég hef virkilega tekið eftir því hverjir eru vinir mínir og hverjir ekki og ég sé hvað fjölskyldan er mér mikilvæg og án hennar gæti ég aldrei verið.  Ég er farin að hugsa allt öðruvísi en ég gerði þegar ég var heima og þroskinn, hugsunarhátturinn, þolinmæðin og allt það hefur breyst.  Mér hefur tekist að kynnast sjálfri mér og núna veit ég nákvæmlega hvað ég vil í lífinu og hvað ég vil ekki.  Ég veit hver mín markmið í lífinu eru. Loksins.

Að búa í svona stórborg veitir mér svo mikla lífsreynslu. 
Það er ótrúlega skrýtið að vera ekki lengur túristi hérna, ég er farin að leiðbeina hinum og þessum til  vegar. Það er ótrúlega gaman að vera kominn inní hlutina og vera bara hluti af daglegu London lífi. Ég hef lesið rosalega mikið um Londonborg og hef lært helling um hina og þessa staðina og farið nokkrar ferðir niður í miðbæ eins og þið lesendur hafið tekið eftir. Að skipuleggja ferðir og taka hina og þessa með mér niður í bæ og fræða þá um miðbæinn er eitthvað sem mér finnst mjög skemmtilegt og gæti alveg vel hugsað mér að vinna við slíkt starf í framtíðinni. Semsagt skipuleggja ferðir og fara með fólk hingað og þangað um heiminn. Ferðamálafræði er nám sem mér þykir virkilega áhugavert og gæti vel hugsað mér að læra það nám í háskóla.

Að bera svona mikla ábyrgð á 2 ára og 5 ára börnum veitir mér svo mikinn þroska .
- Elda kvöldmat fyrir 5 manna fjölskyldu virkir hugmyndaflugið ganvart eldamennsku og  ég verð reynslunni ríkari gagnvart því þegar ég kem heim og miklu betri kokkur fyrir vikið.
- Þrífa þvottinn fyrir 5 manna fjölskyldu fær mig til að pæla miklu meira í því hvernig ég þvæ þvottinn og á hvaða stillingu vélin þarf að vera fyrir hvern þvott.  Þegar ég bjó í Lögbergsgötu var ég eingöngu að hugsa um sjálfan mig og  þá pældi ég ekkert í þessu setti allaf bara vélina á 40 og ýtti á start. Núna er sagan önnur.
- Þrífa 4 hæða hús kennir mér á húsið og ég veit hvar allt er í húsinu. Joshua á þúsund litla stríðskalla sem eru út um allt hús og einhverja hluta vegna veit ég alltaf hvar kallarnir hans eru.  Þegar hann biður mig um að hjálpa sér að leita þrátt fyrir að ég kom ekki nálægt þeim þá er ég orðin þessi týpiska mamma sem veit alltaf hvar allir hlutirnir eru.
- Þolinmæði nr 1,2 og 3. Þeir sem þekkja mig vel vita að þolinmæðin var kannski ekki mín sterkasta hlið áður en ég kom. Hérna hef ég lært svo mikið og það hefur aldrei reynt eins mikið á þolinmæðina eins og núna.

 Ég hef upplifað nokkur móment sem hafa virkilega látið mér líða eins og mömmu.
-  Í fyrsta lagi þá fór ég um daginn með Sofiu  og Joshua í sundkennslu. Ég þarf alltaf að fara með Sofiu ofan í sundlaugina því þetta eru alveg eins æfingar og foreldrar gera með litlu börnin sín í ungbarnasundi og mér leið alveg eins og ég væri bara með mína eigin dóttir í ungbarnasundi. Joshua bíður svo alltaf bara uppi á bakkanum þangað til hans tími byrjar.
- Í öðru lagi fór ég í barnaafmæli með Joshua og Sofiu. Fyrsta sem tók á móti okkur í afmælinu var trúður sem blés upp blöðrur og gerði allskonar listir sem voru mjög skemmtilegar. Það sem kom mér mest á óvart í þessu afmæli var að það var einnig í boði bjór. Frekar óviðeigandi í barnaafmæli en mér skilst að svona sé þetta hérna í Bretlandi. Krakkarnir fengu ekki að borða afmæliskökuna í afmælinu það fengu allir sinn gjafapoka með allskonar dóti í ásamt afmæliskökusneið sem krakkarnir tóku með sér heim.  Í þessu barnaafmæli leið mér eins og ég ætti þessa 2 yndislegu krakka sem skemmtu sér konunglega í afmælinu og ég var bara með hinum foreldrunum að spjalla og fylgjast með krökkunum.
- Þegar krakkarnir báðir eru farnir að kalla mig mömmu oftar en einu sinni. Joshua sagði svo um daginn ,,æj fyrirgefðu Andrea ég sagði óvart mamma við þig en ég veit alveg að þú heitir Andrea ég ruglaðist bara aðeins." Mjög krúttlegt.


Að lifa sem au-pair er kannski ekki gáfulegasta leiðin fjárhagslegaséð. Það sem bjargar því er að þú ert á fríu fæði, fríu húsnæði og þarft eingöngu að eyða laununum þínum í bíóferðir,  verlunarfeðir, strætóferðir og þess háttar. Þú færð alltaf að borða og þú hefur alltaf þak yfir höfði. Ég hef alveg upplifað það áður að lifa bara á skósólum liggur við.  Þegar ég bjó í Lögbergsgötu og  mánaðarlaunin voru búin og ég átti ekkert að borða þá neyddist ég til að borða brauð með bökuðum baunum í öll mál eða drekka vatn. Það sem bjargaði því var að ég átti frábæra vinkonu hana Þuru mína sem bauð mér annað slagið í mat og Unnur og Addi buðu mér annað slagið líka.  Ég hef bara þá reynslu að ég gæti haft það miklu verra peningalega séð og væli ekki yfir litlum launum því ég fæ alltaf að borða ef ég er svöng.  Þegar við förum að hugsa þetta aðeins lengra og alveg þangað til heim til Íslands kemur þá á maður núll krónur inni á bankareikningum sínum. Sem segir mér það að þegar ég kem heim í ágúst þarf ég að byrja á því að finna mér vinnu og vinna fram að áramótum til að hafa efni á því að fara í skóla eftir áramót.  Jákvæða við þetta allt saman er að þú kemur til baka reynslunni ríkari gagnvart lífinu, þroskaðari og viðhorfið gagnvart hlutunum allt annað.

Lífið hérna í London gengur sinn vanagang. Fór eina ferðina enn í messu hjá Íslendingafélaginu á sunnudaginn síðast liðinn. Gaman að segja frá því að ég talaði við kórstjóran hjá íslenska kórnum og ég ætla mæta á næstu kóræfingu sem verður á þriðjudaginn. Kórinn er með æfingar hjá íslenska sendiráðinu þannig ég þarf að taka alveg 2 lestar til að koma mér á staðinn en alveg þess virði. Ég er farin að sakna þess virkilega að nota ekki raddböndin til að syngja. Hulda er að pæla að koma með mér og svo er önnur stelpa sem ég veit um í kórnum sem heitir Hildur. Þannig þetta er ekki bara það að fara syngja heldur líka tækifæri til að kynnast ennþá fleira fólki. Hlakka rosalega mikið til að mæta á æfingu og sjá hvernig þetta er allt saman.
Eftir messuna fórum við Hulda svo og hittum Siggu okkar og við fórum saman á pizzustað sem tveir íslenskir bræður reka og VÁ hvað það var gott að fá pizzu eins og maður er vanur að fá heima á Íslandi. Tala nú ekki um hvítlauksbrauðstangirnar sem við keyptum líka. Gaman að segja frá því líka að þegar við löbbuðum inn þá segir annar bróðirinn ,,Heeeyy Íslendingar" geðveikt glaður að sjá Íslendinga. Þetta var mjög fyndið. Svo tókum við stelpurnar rölt og fórum inn á bar og drukkum hvítvín og spjölluðum saman um allt og ekkert restina af kvöldinu.

Á miðvikudagskvöldinu buðum við Huldu og fjölskyldu hennar í mat alveg 4 stykki ásamt minni fjölskyldu þannig þetta voru 9 manns. Ég eldaði reyndar bara fyrir eins og 8 manns því Oliver og Sofia borða svo lítið. Ingibjörg gerði svo eftirréttinn . Þetta var yndislegt kvöld í frábærum félagsskap með frábærum fjölskyldum.

Eins og þið sjáið gengur ennþá allt eins og í sögu hjá mér og ég hef aldrei verið ánægðari. Búin að eignast frábærar vinkonur og fjölskyldan náttúrulega eins frábær og hún er og London bara eins og hún er.... ALLTAF jafn spennandi.

Ennþá hvet ég fólk til þess að láta meira í sér heyra. Veit að þið eruð miklu fleiri sem fylgist með mér. Einn daginn komu 729 manns inn á bloggið mitt á einum degi og það er bara ein IP tala sem telur þannig þetta er ekki ég að kíkja á bloggið mitt oftar en einu sinni á dag hahahaha.
Hvar eru öll þessi comment eiginlega?
Koma svo ég veit þið getið betur en þetta kæru vinir og fjölskylda.

Þangað til næst bið ég innilega að heilsa heim og sendi ég ykkur knús og kossa.

10726_190558362624_621187624_3686328_7860000_n.jpg

Andrea kveður með bros á vör frá London.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hehe, okei skal kommenta;) fínt að fá langt og innihaldsríkt blogg að lesa þegar maður situr veikur heima:P

Þorri (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 20:58

2 identicon

Farinn að óttast að þú passir ekki lengur inn í íslenska menningu með öllum þessum þroska. :D

Símon (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 21:01

3 identicon

Alveg sammála þér í flestum punktum þarna nema það að krakkar seu að kalla mig pabba og ég se að busla með þeim í sundi. Þetta er bara ævintýri að fara svona og gera einhvað nýtt og þetta er einhvað sem maður ber það sem eftir er að ævi sinni.

Gott að þú ert að njóta þín þarna og haltu því bara áfram=)

Vídó

Herra Noregur (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 21:05

4 identicon

Hæ Andrea mín!

Ég lenti einmitt líka í þessu um daginn með að krakkarnir kölluðu mig mömmu! Hehe! Þú sást það örugglega á blogginu mínu! Ég er alveg sammála þér með að maður öðlast ótrúlega þolinmæði á því að vera svona mikið með börn og ég er einmitt alltaf að finna eitthvað lítið dót sem Markús á og veit alltaf hvar allt er! Haha! Svona erum við orðnar miklar húsmæður ;-) Frábært að heyra að þú sért búin að setja þér markmið, það er eitthvað svo mikilvægt fyrir mann sjálfan að gera það :-)

Hafðu það gott!

Kveðja frá Boston,

Eva.

Eva Þórey (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 21:21

5 identicon

kommentkommentkomment, gott blott hjá þer dúllan min:) xx

hulda rúnars (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 21:25

6 identicon

vá hvað ég skil VEL hvernig þér líður! þessar fyrstu línurnar alveg eins og ég myndi hafa þetta á þessum tíma!! þú ert æðisleg, alltaf dugleg að blogga og vá stendur þig eins og hetja!! hlakka til að heyra frá þér

ást mikil ást sæta mín;* sakna þin!

Fanney (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 21:32

7 identicon

Hæ ástin mín,vá mér finnst svolítið vont að þú verðir ekki lengur litla píslin mín þegar þú kemur heim,heldur lífsreynd ung kona með allt á hreinu.Þolinmæði verður kannski þín sterkasta hlið eftir þessa reynslu,veitti svo sannarlega ekki af hahahaha, mun nýtast þér svo vel seinna.LOVE YOU.

kveðja mamma og pabbi.

Mamma (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 22:15

8 identicon

Var einmitt að pæla í gær - hvar er Andrea hún hefur ekkert verið á feisinu, en svo sá ég þetta blogg.  Sem var mjög gaman að lesa ... Já það er sko lífsreynsla að búa annars staðar en heima hjá sér hjá mömmu og pabba og enn meiri lífsreynsla að búa ekki á Islandi.  þetta er eitthvað sem allir eiga að reyna að prófa ef þeir fá tækifæri til þess :)   Eg væri sko alveg til í að fara út aftur með krakkana því þá fengi maður ´nýja reynslu á þetta allt.  En gaman að sjá hvað þetta er að færa þér, ekki bara djamm og gaman , sem er nauðsynlegt líka.  Eg sit hérna núna ein og er að hita mér te, Unnur sefur vært upp í rúmi og ég er að reyna koma mér í þessi húsverk sem þú talar um, drífa, þvo og undir búa kvöldmat, sem mér finnst erfiðast að gera ekki að búa hann til heldur ákveða hvað á að vera í matinn.  Hef alltaf dáðst af konum og körlum (stundum) sem hafa ákveðið hvað á að vera í matinn í 40 til 50 ár eins og t.d. mamma/amm og amma/langamma.  En þá er nú gott að skella sér á netið eða feisið þar sem ég er meðlimur í einhverjum matarklubbum heheeh

Þúsund kossar frá okkur í Stuðlabergi - hlökkum til þegar þú kemur til baka - þú vonandi gistir hjá okkur

Ella frænka

Ella Frænka (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 11:09

9 identicon

Hæ sæta! Ég vildi bara láta þig vita að ég er alltaf að fylgjast með blogginu þínu sæta mín og finnst það frábært að þér líði vel þarna úti!

Og æji hvað hann Joshua er krúttlegur með að hann hafi kallað þig mömmu! haha =D

knús og kossar á þig;*

Guðný Vala

Guðný Vala (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 14:12

10 identicon

Hæj! Þetta var glæsó blogg hjá þér og gaman að sjá hvernig þú lítur öðrum augum á allskonar hluti í lífinu:) Það verður spennandi að sjá hvað þú tekur þér fyrir hendur þegar þú kemur heim aftur, en fyrst og fremst skaltu njóta þess að vera úti:) Sakna þín!

Svanhildur (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband