Bloggfærslur mánaðarins, október 2009
48 dagar í að ég komi heim í jólafrí!
31.10.2009 | 18:52
Góðan daginn elsku vinir og fjölskylda.
Í fréttum er þetta helst.....
Það gengur allt sinn vanagang hjá mér en búið að vera óvenjulega mikið að gera alla þessa vikuna. Það er reyndar búið að vera frekar rólegt að gera hjá mér hjá minni fjölskyldu því Joshua fór til Íslands í vetrarfríinu og ég hef bara verið ein með Sofiu alla vikuna . Það er margt annað sem hefur gengið á í vikunni.
- Ég er búin að fara á 2 kóræfingar síðan ég skildi við ykkur síðast og er þetta bara ekki sem verst. Viðurkenni það að kór hefur aldrei höfðað til mín því ég er svo vön því að syngja alltaf bara ein eða í samsöng í tónlistarskólanum sem er miklu skemmtilegra en að vera í kór. Þrátt fyrir það þá er þetta bara fínt og gaman að hitta annað fólk og tala nú ekki um að fá að syngja smá.
- Ég er búin að bjóðast til þess að passa fyrir aðra fjölskyldu sem er bresk þegar þeim vantar hjálp. Síðustu tvö kvöld hef ég verið að hjálpa þeim og passa 2 krakka sem heita
Jamyn (3 ára) og Tillika (5 ára). Frábærir krakkar og bara góð áskorun fyrir mig að tala ensku allt kvöldið. Ótrúlegt en satt þá hefur mér bara gengið rosalega vel að tala enskuna við þau og ef ég sagði eitthvað vitlaust þá leiðrétti Tillika mig bara. Hún er rosalega klár og falleg stelpa sem er gaman að, hún er strax farin segjast elska mig og mér finnst það bara krúttlegt. Jamyn er einnig mjög fallegur og skemmtilegur strákur þannig síðustu 2 kvöld hafa bara verið skemmtileg.
Viðurkenni það að ég er orðin rosalega þreytt, það tekur á að vera passa börn frá 08:00 - 23:00 á kvöldin. Málið er bara eins og ég hef marg oft sagt þá eru au-pair launin ekki það mikil og af því það eru að koma jól þá vantar mig aðeins meiri pening þannig ég ákvað að bæta smá aukavinnu á mig til að fá smá auka pening. Getur vel verið að ég þurfi ekki að hætta við enskuskólann eftir áramót ef ég held áfram að passa fyrir þau eftir áramót því þá á ég aðeins meiri pening og get notað aukapeningin í að borga enskuskólann. Það kemur hinsvegar bara í ljós þegar kemur að því. - Ég er búin að kynnast 3 öðrum íslenskum au-pair stelpum ásamt 3 öðrum íslenskum strákum sem eru bara að vinna hérna í London. Manni leiðist allavega ekki þegar maður er í fríi því maður er alltaf úti um allann bæ að hitta hina og þessa. Þrátt fyrir að vera orðin svolítið breytt manneskja þá breyttist ég allavega ekki með það að vera fljót að kynnast fólki eins og ég var heima, ég held því áfram því ég kynnist fólki á hverjum degi liggur við. Tala nú ekki um strákana sem stoppa mann ef maður er á leiðinni í sakleysi sínu í búðina eða ræktina og einhverjir strákar spurja hvort þeir megi fá nr mitt. Mér finnst það alltaf jafn fyndið en kem mér alltaf skemmtilega út úr því. Sumir eru heppnir og fá nr mitt aðrir ekki. Ef þeir eru myndarlegir þá gef ég þeim smá séns og er ekki eins köld við þá eins og ég er vanalega við strákana hérna. Svo kemur bara í ljós hvort þeir hafi samband við mig eða ekki. Hvernig á maður að kynnast fólki ef maður segir alltaf bara nei? tjah maður spyr sig.
Það eru einungis 48 dagar í að ég komi heim til Íslands í jólafrí og ég held að flestir viti hvað ég er orðin spennt. Mér þykir svo vænt um að heyra hvað fólk er farið að sakna mín og söknuðurinn minn er ekki minni. Nei ég er ekki komin með heimþrá það vottar ekki af henni ég er bara svo rosalega spennt að hitta alla frábæru vini mína og elsku fjölskyldu mína og fá að eyða hátíðisdögunum með þeim.
Ég Þakka kærlega fyrir öll commentin sem komu á síðasta bloggi. Þarna var ég virkilega ánægð með ykkur. Miklu skemmtilegra að sjá hverjir eru að fylgjast með manni og ótrúlegasta fólk gerir það greinilega því sum commentin komu mér á óvart hehe.
Þangað til næst bið ég innilega að heilsa ykkur öllum.
Kossar og knús
Andea Ösp.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Endalaus lærdómur.
16.10.2009 | 20:48
Þegar maður hefur verið svona lengi í burtu frá fjölskyldu og vinum áttar maður sig á svo mörgum hlutum. Ég hef virkilega tekið eftir því hverjir eru vinir mínir og hverjir ekki og ég sé hvað fjölskyldan er mér mikilvæg og án hennar gæti ég aldrei verið. Ég er farin að hugsa allt öðruvísi en ég gerði þegar ég var heima og þroskinn, hugsunarhátturinn, þolinmæðin og allt það hefur breyst. Mér hefur tekist að kynnast sjálfri mér og núna veit ég nákvæmlega hvað ég vil í lífinu og hvað ég vil ekki. Ég veit hver mín markmið í lífinu eru. Loksins.
Að búa í svona stórborg veitir mér svo mikla lífsreynslu.
Það er ótrúlega skrýtið að vera ekki lengur túristi hérna, ég er farin að leiðbeina hinum og þessum til vegar. Það er ótrúlega gaman að vera kominn inní hlutina og vera bara hluti af daglegu London lífi. Ég hef lesið rosalega mikið um Londonborg og hef lært helling um hina og þessa staðina og farið nokkrar ferðir niður í miðbæ eins og þið lesendur hafið tekið eftir. Að skipuleggja ferðir og taka hina og þessa með mér niður í bæ og fræða þá um miðbæinn er eitthvað sem mér finnst mjög skemmtilegt og gæti alveg vel hugsað mér að vinna við slíkt starf í framtíðinni. Semsagt skipuleggja ferðir og fara með fólk hingað og þangað um heiminn. Ferðamálafræði er nám sem mér þykir virkilega áhugavert og gæti vel hugsað mér að læra það nám í háskóla.
Að bera svona mikla ábyrgð á 2 ára og 5 ára börnum veitir mér svo mikinn þroska .
- Elda kvöldmat fyrir 5 manna fjölskyldu virkir hugmyndaflugið ganvart eldamennsku og ég verð reynslunni ríkari gagnvart því þegar ég kem heim og miklu betri kokkur fyrir vikið.
- Þrífa þvottinn fyrir 5 manna fjölskyldu fær mig til að pæla miklu meira í því hvernig ég þvæ þvottinn og á hvaða stillingu vélin þarf að vera fyrir hvern þvott. Þegar ég bjó í Lögbergsgötu var ég eingöngu að hugsa um sjálfan mig og þá pældi ég ekkert í þessu setti allaf bara vélina á 40 og ýtti á start. Núna er sagan önnur.
- Þrífa 4 hæða hús kennir mér á húsið og ég veit hvar allt er í húsinu. Joshua á þúsund litla stríðskalla sem eru út um allt hús og einhverja hluta vegna veit ég alltaf hvar kallarnir hans eru. Þegar hann biður mig um að hjálpa sér að leita þrátt fyrir að ég kom ekki nálægt þeim þá er ég orðin þessi týpiska mamma sem veit alltaf hvar allir hlutirnir eru.
- Þolinmæði nr 1,2 og 3. Þeir sem þekkja mig vel vita að þolinmæðin var kannski ekki mín sterkasta hlið áður en ég kom. Hérna hef ég lært svo mikið og það hefur aldrei reynt eins mikið á þolinmæðina eins og núna.
Ég hef upplifað nokkur móment sem hafa virkilega látið mér líða eins og mömmu.
- Í fyrsta lagi þá fór ég um daginn með Sofiu og Joshua í sundkennslu. Ég þarf alltaf að fara með Sofiu ofan í sundlaugina því þetta eru alveg eins æfingar og foreldrar gera með litlu börnin sín í ungbarnasundi og mér leið alveg eins og ég væri bara með mína eigin dóttir í ungbarnasundi. Joshua bíður svo alltaf bara uppi á bakkanum þangað til hans tími byrjar.
- Í öðru lagi fór ég í barnaafmæli með Joshua og Sofiu. Fyrsta sem tók á móti okkur í afmælinu var trúður sem blés upp blöðrur og gerði allskonar listir sem voru mjög skemmtilegar. Það sem kom mér mest á óvart í þessu afmæli var að það var einnig í boði bjór. Frekar óviðeigandi í barnaafmæli en mér skilst að svona sé þetta hérna í Bretlandi. Krakkarnir fengu ekki að borða afmæliskökuna í afmælinu það fengu allir sinn gjafapoka með allskonar dóti í ásamt afmæliskökusneið sem krakkarnir tóku með sér heim. Í þessu barnaafmæli leið mér eins og ég ætti þessa 2 yndislegu krakka sem skemmtu sér konunglega í afmælinu og ég var bara með hinum foreldrunum að spjalla og fylgjast með krökkunum.
- Þegar krakkarnir báðir eru farnir að kalla mig mömmu oftar en einu sinni. Joshua sagði svo um daginn ,,æj fyrirgefðu Andrea ég sagði óvart mamma við þig en ég veit alveg að þú heitir Andrea ég ruglaðist bara aðeins." Mjög krúttlegt.
Að lifa sem au-pair er kannski ekki gáfulegasta leiðin fjárhagslegaséð. Það sem bjargar því er að þú ert á fríu fæði, fríu húsnæði og þarft eingöngu að eyða laununum þínum í bíóferðir, verlunarfeðir, strætóferðir og þess háttar. Þú færð alltaf að borða og þú hefur alltaf þak yfir höfði. Ég hef alveg upplifað það áður að lifa bara á skósólum liggur við. Þegar ég bjó í Lögbergsgötu og mánaðarlaunin voru búin og ég átti ekkert að borða þá neyddist ég til að borða brauð með bökuðum baunum í öll mál eða drekka vatn. Það sem bjargaði því var að ég átti frábæra vinkonu hana Þuru mína sem bauð mér annað slagið í mat og Unnur og Addi buðu mér annað slagið líka. Ég hef bara þá reynslu að ég gæti haft það miklu verra peningalega séð og væli ekki yfir litlum launum því ég fæ alltaf að borða ef ég er svöng. Þegar við förum að hugsa þetta aðeins lengra og alveg þangað til heim til Íslands kemur þá á maður núll krónur inni á bankareikningum sínum. Sem segir mér það að þegar ég kem heim í ágúst þarf ég að byrja á því að finna mér vinnu og vinna fram að áramótum til að hafa efni á því að fara í skóla eftir áramót. Jákvæða við þetta allt saman er að þú kemur til baka reynslunni ríkari gagnvart lífinu, þroskaðari og viðhorfið gagnvart hlutunum allt annað.
Lífið hérna í London gengur sinn vanagang. Fór eina ferðina enn í messu hjá Íslendingafélaginu á sunnudaginn síðast liðinn. Gaman að segja frá því að ég talaði við kórstjóran hjá íslenska kórnum og ég ætla mæta á næstu kóræfingu sem verður á þriðjudaginn. Kórinn er með æfingar hjá íslenska sendiráðinu þannig ég þarf að taka alveg 2 lestar til að koma mér á staðinn en alveg þess virði. Ég er farin að sakna þess virkilega að nota ekki raddböndin til að syngja. Hulda er að pæla að koma með mér og svo er önnur stelpa sem ég veit um í kórnum sem heitir Hildur. Þannig þetta er ekki bara það að fara syngja heldur líka tækifæri til að kynnast ennþá fleira fólki. Hlakka rosalega mikið til að mæta á æfingu og sjá hvernig þetta er allt saman.
Eftir messuna fórum við Hulda svo og hittum Siggu okkar og við fórum saman á pizzustað sem tveir íslenskir bræður reka og VÁ hvað það var gott að fá pizzu eins og maður er vanur að fá heima á Íslandi. Tala nú ekki um hvítlauksbrauðstangirnar sem við keyptum líka. Gaman að segja frá því líka að þegar við löbbuðum inn þá segir annar bróðirinn ,,Heeeyy Íslendingar" geðveikt glaður að sjá Íslendinga. Þetta var mjög fyndið. Svo tókum við stelpurnar rölt og fórum inn á bar og drukkum hvítvín og spjölluðum saman um allt og ekkert restina af kvöldinu.
Á miðvikudagskvöldinu buðum við Huldu og fjölskyldu hennar í mat alveg 4 stykki ásamt minni fjölskyldu þannig þetta voru 9 manns. Ég eldaði reyndar bara fyrir eins og 8 manns því Oliver og Sofia borða svo lítið. Ingibjörg gerði svo eftirréttinn . Þetta var yndislegt kvöld í frábærum félagsskap með frábærum fjölskyldum.
Eins og þið sjáið gengur ennþá allt eins og í sögu hjá mér og ég hef aldrei verið ánægðari. Búin að eignast frábærar vinkonur og fjölskyldan náttúrulega eins frábær og hún er og London bara eins og hún er.... ALLTAF jafn spennandi.
Ennþá hvet ég fólk til þess að láta meira í sér heyra. Veit að þið eruð miklu fleiri sem fylgist með mér. Einn daginn komu 729 manns inn á bloggið mitt á einum degi og það er bara ein IP tala sem telur þannig þetta er ekki ég að kíkja á bloggið mitt oftar en einu sinni á dag hahahaha.
Hvar eru öll þessi comment eiginlega?
Koma svo ég veit þið getið betur en þetta kæru vinir og fjölskylda.
Þangað til næst bið ég innilega að heilsa heim og sendi ég ykkur knús og kossa.
Andrea kveður með bros á vör frá London.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þura í heimsókn.
7.10.2009 | 10:15
Góðan daginn elsku vinir og fjölskylda.
Dagarnir líða og líða og ég er búin að vera hérna í 2 mánuði. Ótrúlega skrítið að hugsa út í það að ég sé búin að vera hérna svona lengi því mér líður ekki eins og þetta séu 2 mánuðir. Búin að vera ótrúlega heppin að fá 2 heimsóknir á þessum stutta tíma. Fyrst Unni og svo var Þura að fara til Íslands í gærkvöldi. Verð að viðurkenna það að ég fékk aftur þessa ,,vilja líka fara heim" tilfinningu þegar ég kvaddi Þuru á lestarstöðinni í gærkvöldi. Það var OF gott að hafa hana hjá mér og alls ekki leiðinlegt að hafa bestu vinkonu sína í heimsókn. Veit að sumir bíða spenntir eftir að lesa ferðasöguna til Coventry þannig ég ætla reyna segja ykkur smá frá síðustu dögum.
Þura kom til London á föstudagskvöldinu. Ingibjörg var á Íslandi með Sofiu og Chuck var að vinna fram að miðnætti þannig ég gat því miður ekki farið út á flugvöll til að taka á móti henni því ég var ein heima með Joshua. Það vildi hinsvegar svo skemmtilega til að Hulda og Hrafnhildur voru líka að fara á Heathrow að sækja son Hrafnhildar sem var að koma til London í sömu vél og Þura. Ég bað þá Huldu og Hrafnhildi endilega að hafa auga með Þuru og kannski hjálpa henni að koma henni í rétta lest þar sem að þær voru nú líka að fara taka sömu lest og Þura. Það var ekkert mál og Þura hringir svo í mig þegar hún er komin út úr lestarstöðinni heima hjá mér. Það er smá spölur frá lestarstöðinni og alveg heim að dyrum þannig ég ætlaði að lýsa fyrir Þuru hvar hún gæti pantað bíl til að keyra sér heim. Hún labbaði víst framhjá því sem ég var að reyna lýsa fyrir henni og hún komin hálfa leiðina heim þannig ég sá ekkert annað í stöðunni en að lýsa bara fyrir henni leiðina heim. Hún sagði mér bara í hvaða götu hún var í og hvað hún sæi fyrir framan sig og ég sagði henni hvort hún ætti að fara til hægri, vinstri eða beint áfram. Þetta gekk svona skemmtilega vel og þegar ég opna hurðina sá ég þá ekki duglegu stelpuna mína labba inn um götuna hjá mér. Fyrir þá sem hafa labbað heim til mín frá lestarstöðinni þykja þetta kannski ótrúlegt þar sem að þetta er mikið af beygjum og krókaleiðum þannig ég er virkilega stolt af Þuru minni að hafa labbað með ferðatöskuna sína alla leiðina heim. Get ekki lýst tilfinningu þegar ég sá hana, það var svo gott að sjá hana því við vinkonurnar höfðum sko margt að segja hvor annarri sem hefur þurft að frestast að sökum þess að það er dýrt að hringja og það er leiðinlegt að skrifa endalaust á msn. Það fyrsta sem við gerðum var að opna ferðatöskuna og ég er að segja ykkur það ég hélt að Þura ætlaði aldrei að hætta týna nammi upp úr töskunni. Ég fékk elsku mixið mitt, fékk líka appelsín, harðfisk, bland í poka úr hagkaup, möndlur, bingó lakkrískúlur, hraunbita, grænan ópal, maríu kex, pólókex og ég veit ekki hvað og hvað. Fengum okkur smá nammi fyrir svefninn, pökkuðum síðan smá nammi aftur ofan í tösku og hentum nokkrum fötum ofan í því ferðalaginu hennar Þuru var ekki lokið. Vorum að fara til Coventry eldasnemma daginn eftir í heimsókn til Arons og horfa á hann keppa á móti Leicester og taka smá Íslendingadjamm. Það var síðan bara komið sér upp í rúm og spallað aðeins þrátt fyrir að við þurftum að vakna kl 05:00 daginn eftir.
Vekjaraklukkann hringdi klukkan 05:00 og við ætluðum ekki að TRÚA því að við þyrftum að vakna strax því við töluðum svo mikið um nóttina. Jæja það var ekkert við því að gera enda frábær dagur framundan, við komum okkur á fætur, fengum okkur morgunmat og komum okkur út á lestarstöð. Vorum komnar ti Euston svona hálf sjö og þaðan tókum við lestina til Coventry. Þökkuðum guði fyrir það að við vorum komnar svona snemma á lestarstöðinni í Euston því brottför frá Euston var 07:03 og það þurfti endilega að klikka eitthvað með miðana því Aron var svo elskulegur að bjóða okkur til Coventry og self service tækin þarna vildu bara kortið sem miðarnir voru keyptir með og við höfðum ekkert svoleiðis og byrjuðum á því að tala við einhverja grumpy kellingu sem ætlaði svona aldeilis að skemma fyrir okkur daginn og sagði að bókunarnúmerið væri ekki nóg og við gætum ekki fengið miðana okkar. Við stóðum þarna eins og asnar illa pirraðar og ógeðslega þreyttar og vissum ekkert hvað við áttum að gera. Gerðum svo aðra tilraun og töluðum í seinna skiptið við yndælis mann og þá var bara nóg að brosa og vera sætur og hann reddaði þessu fyrir okkur og við vorum komnar upp í lestina á réttum tíma og lagðar á stað til Coventry áður en við vissum af. Ferðin til Coventry tók klukkutíma og það var sko spjallað um ALLT í heiminum á leiðinni og étið yfir sig af nammi. Aron kom svo og tók á móti okkur á lestarstöðinni í Coventry. Þegar heim til hans var komið þá höfðum við það bara kósý horfðum á Ástríði og Fangavaktina og fengum okkur smá samlokur sem mamma hans var svo elskuleg að gera fyrir okkur. Aron átti svo að vera mættur út á fótboltavöll um ellefu þannig við klæddum okkur svo bara og komum okkur út. Leikurinn var ótrúlega skemmtilegur og rosalega spennandi sáum frekar glataðar klappstýrur sem voru ekki alveg að gera góða hluti en samt gaman að sjá þetta allt saman. Coventry tapaði ekki mér til mikillar gleði því einhverja hluta vegna þá tapar allaf liðið sem ég á að halda með þegar ég mæti og horfi á leikinn þannig ég er ekki eins mikið óhappa og ég hélt. Leikurinn endaði semsagt 1-1.
Eftir leikinn fórum við svo öll út að borða semsagt ég, Þura, Aron, Guðrún, Snorri og mamma Arons á Pizza Hut. Svo var bara komið sér heim í sturtu og við Þura lögðum okkur í klukkutíma áður en við fórum að taka okkur til á djammið. Skemmtilegt að Guðrún og Snorri kærasti hennar voru akkúrat í heimsókn hjá Aroni þegar við komum þannig við gátum tekið gott íslendingadjamm og skemmtum okkur öll koooonunglega og klárlega mitt ALLRA besta djamm ever. Því miður þurftum við Þura svo að vakna eina ferðina enn snemma því lestin okkar fór frá Coventry kl 10:00 þannig ferskleikinn var alls ekki mikill þegar við vöknuðum. Þakka samt kærlega fyrir mig þetta ferðalag var frábært og ég skemmti mér konunglega með ykkur öllum.
Dean, Guðrún, Snorri, Þura, Aron og ég.
Ég og Þura áttum semsagt frábæra 5 daga saman, náðum að spjalla helling saman, fara til Coventry, fórum 2 sinnum út að borða, fórum nokkrum sinnum á kaffihús, versluðum á oxford street og ég sýndi henni Big Ben, Buckingham Palace of Westminister Abbey. Takk æðislega elsku Þura mín fyrir frábæra heimsókn þetta var ooof gaman og ég get ekki beðið eftir að sjá þig um jólin hvað þá fá þig út til mín eftir áramót. Við eigum eftir að skemmta okkur kooonunglega.
Ég elska þessa svolítið mikið.
Gaman að segja frá því að það er búið að bóka fyrir mig flugið heim til Íslands 18. Desember þannig núna byrja ég bara að telja niður. Hlakka rooooosalega mikið til að kíkja smá heim í heimsókn og sjá alla aftur. Ég er farin að sakna allra virkilega mikið og get ekki neitað því að mig langi svolítið heim núna en það hlaut að koma að því að maður fengi smá heimþrá, annað væri óeðlilegt held ég. Þetta er samt alls ekkert alvarleg heimþrá. Það gengur allt vel hjá mér, krakkarnir eru bara í sínum skólum og ég held áfram að vera húsmóðir.
En jæja ætla segja þetta gott í dag, orðið svolítið langt blogg hjá mér. Þau eru nú yfirleitt alltaf í lengri kanntinum en ástæðan fyrir því er sú að ég vil frekar blogga sjaldnar og hafa eitthvað að segja frekar en að blogga oftar og hafa ekkert merkilegt að segja ykkur. Þannig þið megið yfirleitt búast við því að þegar ég blogga þá eru þið að fara lesa ritgerð. Væri gaman að sjá fleiri comment veit að það eru miklu fleiri sem lesa bloggið mitt en commentin segja til um, alltaf gaman að sjá hverjir eru að fylgjast með manni.
Bið innilega að heilsa ykkur heima í snjónum.
Andrea kveður frá haust rigningunni í London.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)